31 október 2011

D-vítamín skammtur dagsins

Nú er búið að hræða úr mér líftóruna með þessari umfjöllun um D-vítamínskort. Svo að ég skellti mér út í fiskbúð í dag og keypti ferska ýsu. Ég er ekki mikil fisk manneskja og á erfitt með að borða soðna ýsu nema hún sé stöppuð “a-la-pabbi”. Ég ákvað þess vegna að gera eitthvað gott úr þessu og sullaði einhverju saman úr ísskápnum.

Það sem þarf fyrir 2:

500 gr ýsa ca.
1 paprika rauð
½ laukur
1 hvítlauksgeiri
½ kúrbítur (zucchini)
1 lítil dós tómatpurée
Salt & PiparRifinn ostur
1 bolli hýðishrísgrjón

Ég eldaði þennan fisk í kvöld.

Ég skolaði og sauð fyrst hrýðishrísgrjón.

Svo skar ég smátt niður papriku, hvítlauk, lauk og kúrbít. (Held að það skipti voða litlu máli hvort maður noti hvítan eða rauðan lauk) Skellti því í skál hrærði saman við ca 1 dós af tómat purée og smá vatni (sem ég hefði kannski betur sleppt). Salt & pipar en það má líka nota einhver önnur krydd.
Svo er að setja ýsubitana í eldfast mót, hella maukinu yfir og og strá rifnum ost yfir. Svo leyfa því að bíða þangað til það er ca hálftími eftir af grjónunum.

Þá setti ég fiskinn inn og hafði hann í 25-30 mín eða bara þangað til að osturinn var orðinn girnilegur.
Ég skellti líka í smá salat fyrir manninn minn sem borðar ekki hrísgrjón. Það var bara spínat, mangó, paprika og gúrka.
Ég ætlaði að taka mynd af disknum en myndavélin var batteríslaus :(

Það kom mér alveg á óvart hvað þetta var gott. En ég á eftir að bæta einhverju skemmtilegu í þetta næst eins og ferskum chilli í svona.

Ódýr, góður og hollur réttur!

-HH

18 október 2011

Tekið-til-í-ískápnum-matur

Hann þarf ekki að vera hálf jógúrtdós og gamalt brauð með sultu. Ég var að reyna að búa til eitthvað úr þeim “afgöngum” sem ég átti í ískápnum. Ég var með opna pestókrukku, kókosmjólk og sveppi sem ég vildi ekki að mundi skemmast. Þá byrjar bullið sem varð síðan bara mjög gott og ég er að hugsa um að gera þetta aftur, betur um bætt.

Hérna er uppskriftin: (birt með fyrirvara um skrítnar mælieiningar)


1 kjúklingabringa
2 msk rautt pestó
1-2 msk kókosmjólk
4 sveppir
2 hvítlauksgeirar
Salt
Pipar


Þetta er reyndar bara fyrir einn.
En ég byrjaði á því að skera kjúklingabringuna í bita og steikti svo kjúklinginn á pönnu þangað til að hann var u.þ.b að vera tilbúinn. Því næst setti ég sveppina á (búin að skera þá í sneiðar líka), smátt saxaðann hvítlaukinn, salt og pipar. Þegar sveppirnir eru klárir setti ég kókosmjólkina og pestóið út á og leyfði því að malla saman í ca. korter.

Ég get ímyndað mér að það sé gott að setja smá chillikrydd (jafnvel ferskt) og eitthvað meira grænmeti eins og minimaís og sólþurrkaða tómata.

Svona má nú láta hugmyndaflugið ráða!

-HH

06 október 2011

Ráð við myglusvepp!

Ertu að velta því fyrir þér afhverju fallega hvíta sturtuhengið þitt er allt í einu orðið appelsínugult að neðan? Það er MYGLUSVEPPUR – minn helsti óvinur. Þetta er út um ALLT.
Vonda lyktin sem kemur af íþróttafötunum með tímanum, þvottinum sem gleymdist í þvottavélinni, í þurrkaranum, skúffunn
i í þvottavélinni þar sem þú setur mýkingarefni, gluggunum... úff ég fæ gæsahúð.

Ég var nýbúin að henda stórum poka af íþóttafötum þegar foreldrar mínir kynntu mig fyrir Rodaloni! Þetta er svo mikil snilld og ég veit ekki hvar ég væri án þess. Það er mjög einfalt í notkun. Ég var t.d. að þrífa íþróttafötin mín um daginn, fyllti bala af vatni, hellti Rodaloni út í (hlutföllin eru á brúsanum) setti fötin ofan í og lét þetta liggja í bleyti í ca. hálftíma. Svo skolaði ég þau vel og setti svo í þvottavélina og voilá fötin eru eins og ný.
Það er líka mikilvægt að setja þvottavélina reglulega á suðu svo að sveppurinn þrífist ekki þar.


03 október 2011

,,Minningarkassi"

Ég var að flytja um daginn og var að fara í gegnum dótið mitt. Ég ákvað að fara í gegnum einn kassa sem ég er búin að geyma inn í skáp mjög lengi og safna miklu í. Ég veit ekki alveg hvað ég á að kalla þennan kassa en ég held að besta orðið yfir hann væri “minningarkassi”. Í honum geymi ég gamlar bekkjarmyndir síðan í grunnskóla, bönd af útihátíðum, bréf, lestarmiða, flugmiða, kort, viðurkenningar, gamlar dagbækur og allskonar skemmtilegt. Ég fletti í gegnum þetta með vinkonu minni og við skemmtum okkur konunglega. Það sem mér þótti þó skemmtlegast að sjá voru bréf sem litla systir mín hafi skrifað til mín þegar hún var 6/7 ára. Þannig var að ég var heima hjá mér í gelgjukasti skellandi hurðum, öskrandi á foreldra mína og systir mín og litla frænka mín voru ekki alveg nógu sáttar svo að þær tóku sig til og skrifuðu til mín bréf og settu undir hurðina mína. Ég geymdi þessi bréf og þau eru ómetanleg núna.

Mamma er líka búin að safna í barnamöppuna hennar systur minnar síðan hún varð ólétt af henni að ég held. Allt frá sónarmyndum upp í einkunnir í 7. bekk. Þarna geymir hún alla flugmiðana hennar, allar myndir síðan í leikskóla og skóla, skemmtilegar teikningar og skilaboð (sem eru skemmtilegust).

Ég legg til að þið farið að safna ykkar dóti saman í einn fallegann kassa eins og ég er búin að gera, þetta verður skemmtilegra og betra með tímanum.

02 október 2011

Kjúklingamáltíð Íslands

Ég verð að deila með ykkur uppáhalds réttinum mínum þessa dagana. Ég held að ég gæti borðað endalaust af þessu. En þetta er ekki bara sjúklega gott heldur MJÖG hollt líka! Það er mjög auðvelt að gera hann og hann er ekki dýr. Ég tek það samt fram að ég er mjög léleg í mælieiningum og geri þetta yfirleitt eftir tilfinningunni.

Það sem þarf (fyrir tvo) er:
Ein-tvær stórar sætar kartöflur
3-4 hvítlauksgeirar
Ólífuolía
2 kjúklingabringur
Brokkolí
Ab-mjólk
¼ gúrka
¼ rauð paprika























Ég byrja á að skera sætu kartöflurnar í frekar þykkar “franskar” og set þær í eldfast mót. Svo er að sulla smá ólífuolíu yfir og pressa 2 hvítlauksgeira (eða þrjá fyrir hvítlauksunnendur eins og mig) yfir og hræra svolítið í þessu, gróft salt yfir. Þær eru svo settar í ofn við 180-190 gráður (vildi að ég kunni að gera gráðumerki á þessari tölvu) og blástur. Þær þurfa að vera þar í svona 30-40 mín - fínt að stinga gaffli í þær og athuga hvort þær séu ekki orðnar mjúkar eftir þennan tíma eða jafnvel fyrr.

Þegar kartöflunar eru búnar að vera inní í ca. 20 mín þá skelli ég kjúklingnum á pönnu og krydda að vild. Ég kaupi yfirleitt 4 kjúklingabringur og set 2 í frystinn eða ískápinn og nota seinna.
Svo er að skera brokkolíhausinn, ég nota yfirleitt alveg hálfann, setja brokkolíið í pott og sjóða. Mér finnst best að hafa frekar lítið vatn í botninum og leyfa því að malla með lokið á.
Á meðan þetta er allt í gangi sker ég mjög smátt (eða pressa) 1 hvítlauksgeira, sker gúrkuna í mjög smáa bita sem og paprikuna og set í skál. Yfir það helli ég slatta af ab-mjólk með smá ólífuolíu, salti og pipar. Þetta er einskonar tzatziki nema bara með ab-mjólk í staðin fyrir gríska jógúrt og svo fannst mér gott að bæta paprikunni út í. Ég borða líka alltaf ab-mjólk í morgunmat svo ekkert fer til spillis í þessari uppskrift!
Svo er ekki verra að skella fersku salati úr garðinum hjá mömmu á diskinn. Brokkolíið verður að sjálfsögðu að neyta með smjöri og maldon salti.
Svo er bara að njóta!